Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Set þetta fyrir vin minn Elí.
Vina Maipo Cabernet Sauvignon

Land: Chile
Framleiðandi: Viña Maipo
Berjategund: Cabernet Sauvignon
Stærð: 75 cl
Verð: 990 kr.
Sölustaðir: ÁTVR - Kjarnaverslanir
Plómur, brómber, súkkulaði og vanilla. Vín í mjög góðu jafnvægi. Mjög gott með rauðu (grill)kjöti, pasta og ostum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
S S í slæmum málum
Þetta kemur mér ekki á óvart,svona er þetta búið að vera lengi og svona er með mörg fyrirtæki og stofnanir. Gríðarleg óánægja er á meðal margra starfsmanna Sláturfélags Suðurlands en á síðustu dögum hafa sex starfsmenn sölu og markaðsdeildar, þar af þrír stjórnendur, sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Þrír af þessum sex sögðu upp fyrr í dag. Heimildarmenn Vísis í fyrirtækinu segja að enn fleiri séu að íhuga stöðu sína og muni segja upp störfum á næstu dögum. Forstjóri SS, Steinþór Skúlason, hefur boðað til starfsmannafundar vegna málsins klukkan 16 á morgun. Samkvæmt heimildum Vísis komu uppsagnirnar í kjölfarið á langvarandi óánægju margra starfsmanna með stjórnunarstíl og aðferðir Steinþórs forstjóra SS. Sem dæmi um það má nefna hræðilega útkomu SS úr nýlegri könnun VR á viðhorfum starfsmanna um 130 fyrirtækja til stjórnenda sinna. Heimildarmenn Vísis tala um forneskjulegan stjórnunarstíl, stöðuga afskiptasemi, og stefnuleysi í mannauðsmálum. Einn óánægður starfsmaður SS sagði í samtali við Vísi í dag að litið væri á starfsfólk fyrirtækisins sem kostnað og tölur en ekki manneskjur. Steinþóri Skúlasyni forstjóra var ekki kunnugt um óánægja á meðal starfsfólks SS þegar Vísir náði tali af honum í dag. Aðspurður um uppsagnir starfsfólks undanfarna daga svaraði Steinþór að tvær þeirra ættu sér eðlilegar skýringar. Hann sagðist hins vegar ekki hafa heyrt af neinum uppsögnum í dag. Þegar fréttamaður Vísis tjáði honum að þrír starfsmenn hefðu skilað inn uppsögnum í dag svaraði Steinþór: "Þá veist þú meira en ég"
|
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 5. febrúar 2008
Smá fræðsla um osta sem ég fann á netinu
Ostar
Svo lengi sem menn hafa haldið skepnur hefur ostagerð einnig verið stunduð. Í mörgum löndum á ostagerð sér því afar langa sögu og sterka hefð sem oft er ólík eftir heimshlutum; mismunandi dýrategundir, fóður, loftslag og aðferðir við ostagerð skila sér í fjölbreytileika osta. Rétt eins og góð léttvín hafa vandaðir ostar hver sín sérkenni sem oft eru svæðisbundin. Þá skila alúð og metnaður góðs ostagerðarmanns sér alla leið til unnenda góðra osta.
Fjöldi ostategunda er afar mikill. Á Ítalíu eru t.d. framleiddar yfir 400 ostategundir. Margar sérhæfðari og vandaðri ostategundir eiga undir högg að sækja og víkja í æ ríkari mæli fyrir fjöldaframleiddum, ódýrum ostum. Hörð samkeppni og æ strangari reglur Evrópusambandsins hafa reynst minni ostaframleiðendum erfiðar sem hefur leitt til minna og einsleitara úrvals. Með þessari þróun er hætta á að gamalgrónar hefðir og vinnsluaðferðir við ostagerð falli í gleymsku og glatist.
Þessi þróun á ekki einungis við ostagerð. Fagmenn á ólíkum sviðum matvælagerðar kljást við sama vanda og eru margir sem vilja sporna við þessu með því að kenna neytendum að meta góða matvöru og veita þeim innsýn í vinnuna sem liggur að baki við gerð góðrar matvöru. Ein leið til að veita góðum, vönduðum matvörum brautargengi er að upprunamerkja vöruna. Hafi matvara upprunastimpilinn D.O.P. getur neytandinn treyst því að um sé að ræða gæðavöru sem kemur frá ákveðnu landi eða landsvæði sem hefur sérhæft sig í gerð matvöru í viðkomandi flokki. Þetta hefur reynst góðum ostagerðamönnum vel og æ fleiri kunna að meta góða osta.
Mjúkir ostar
Þeir eru allt frá því að vera smurostar, rétt eins og þykk sósa, upp í að vera ostar sem kalla má miðlungsþétta. Halda mætti að rjómakennd áferð þeirra benti til þess að þeir væru feitir, en svo er ekki. Þvert á móti, fituinnihald þeirra er yfirleitt minna en í hörðum ostum sem eru þroskaðri. Mjúkir ostar hafa oft nokkuð ríkt smjör- og mjólkurbragð.
Þekktir mjúkir ostar: Mozzarella, Ricotta, Mascarpone, Camenbert og Brie. Mild rauðvín, t.d. Bolla Sangiovese, eftirréttavínið Bava Moscato, kampavín eða freyðivín í sætari kantinum eru góð með mjúkum ostum.
Bláostar
Við gerð bláosta er notuð sérstök aðferð til að ná réttri áferð og því bragði sem einkennir bláosta. Osturinn er látinn þroskast við sérstök skilyrði þannig að myglan dreifist og myndar bláar og grænleitar æðar í ostinum. Þessi eiginleiki gerir að verkum að bláosturinn er ávallt mjúkur og kremkenndur. Þá er bláostur frekar laus í sér sem kemur vel í ljós þegar hann er skorinn.
Þekktir bláostar: ítalskur Gorgonzola og franskur Roquefort. Sauternes, góð protvín, t.d. Noval L.B.V. eða þroskuð Bordeaux vín, t.d. Cordier Chateau Cantmerle, henta vel með bláostum.
Harðir ostar
Harðir ostar fá áferð sína af langri geymslu og verða oft svo harðir að erfitt reynist að skera þá. Í munni vilja þeir gjarnan molna en bragðið er margbrotið og þeir eru oftast bragðmeiri en mýkri ostar. Harðir ostar verða þó aldrei lyktarsterkir við geymslu. Sumir verða mildari með aldrinum en aðrir sterkari og bragðmeiri. Geymslutími harðra osta getur verið afar mismunandi eða allt frá 6 mánuðum til 4 ára.
Þekktir harðir ostar: Parmigiano Reggiano (Parmesan) og Grana Padano. Tilvalið er að njóta harðra osta með fínum og vel þroskuðum rauð- og hvítvínum eins og Bolla Le Poiane og Domaine Laroche Saint Martin. Harðir ostar eru frábærir eftir fína máltíð og upplagt að njóta dreggja fínna borðvína með hörðum osti.
Geita- og kindaostar
Ostar gerðir úr mjólk geita eða kinda geta tilheyrt öllum hinum flokkunum. Mikið og oft þungt bragð sameinar þá í einn flokk. Þeir eru svo bragðmiklir að ekki fer á milli mála þegar um geita- eða kindaost er að ræða.
Geitaostar
Hátt sýrustig geitamjólkurinnar gerir bragðmikinn ostinn kalkhvítan og mjúkan. Þeir geta bæði verið mjúkir og lítið þroskaðir (Soignon) og líka miðlungsharðir og a.m.k. 3 mánaða gamlir (Garcia Baquero). Best er að drekka ung, sýrumikil hvítvín eins og Domaine Laroche Chablis með geitaostum.
Kindaostar
Kindaostar eru aftur á móti yfirleitt borðaðir nokkuð þroskaðir og eru þá nógu bragðmiklir og þéttir í sér til að flokkast undir harða osta. Kindaostar eru dökkgulir og eru bragðmiklir án þess að vera mjög sterkir. Þessir ostar njóta sífellt meiri vinsælda og er þekktasti kindaosturinn eflaust hinn spænski Manchego ostur. Góðir með ungum líflegum rauðvínum. Með vel þroskuðum osti er tilvalið að drekka þroskað Cabernet Sauvignon rauðvín, t.d. Torres Gran Coronas.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Þvílíkt rugl, er fólk ekki með alla fimm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 2. febrúar 2008
Hvítvínið með helgarfiskinum td.steiktum saltfiski m/hörpuskel og humarsóu
Bolla Pinot Grigio

Land: Ítalía
Hérað: Veneto
Framleiðandi: Fratelli Bolla
Berjategund: Pinot Grigio
Stærð: 75 cl
Verð: 1090 kr.
Sölustaðir: Kringlan Heiðrún Eiðistorg Smáralind Hafnarfjörður Akureyri Dalvegur
Ávaxtamikið, létt og ferskt hvítvín unnið úr þrúgunni Pinot Grigio sem í sífellu eykur á vinsældir sínar fyrir einfaldan og þægilegan stíl. Bolla Pinot Grigio minnir helst á þroskaða ávexti, flókin og sterkur keimur skrúðgarðsblómum. Vín í góðu jafnvægi, hefur góða fyllingu. Bolla Pinot Grigio hefur mildan ávöxt sem er þó nokkuð ágengur. Hefur þó nokkurn sítrus keim og ágæta endingu. Hentar vel fisk og súpum, hvítu kjöti og léttari réttum. Er best drukkið ungt.
/ til baka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 2. febrúar 2008
Hvað er ólífuolía
Ólífuolía er sívinsælt hráefni og geysilega mikilvæg undirstaða í ítalskri matargerð. En, hún er margslungin, og mikilvægt að þekkja einkenni góðrar ólífuolíu, sé ætlunin að gera vel í matargerð Miðjarðarhafslandanna.
Upphafið
Heimildir um tilvist ólífuolíu ná aftur til tíma Rómverja og forn Grikkja, en þá þegar var ólífuolía undirstaða að matargerð þeirra. Á miðöldum hallaði undir fæti hjá ólífuolíunni, a.m.k. á Ítalíu, verð hækkaði umtalsvert sem gerði hana að eftirsóknarverðri lúxus vöru fyrir aðalinn og aðrar yfirstéttir. Á 14 öld verður afgerandi þróun í notkun fitu í matargerð á Ítalíu, og ber nútímamatargerð þeirra enn keim af þessu. Norðurhéruðin hófu notkun dýrafitu, t.a.m. smjörs, en syðri héruðin notuðu nær eingöngu ólífuolíuna, og lögðu þar með grunninn að þeirri matargerð sem kennd hefur verið við Miðjarðarhafs löndin. Þetta á sér einnig jarðfræðilegar skýringar, en ólífutréð vex á suðlægum slóðum en ekki í norður héruðum Ítalíu. Ólífuolía er grundvallar hráefni í ítalskri matargerð, einfalt og skynsamlegt hráefni sökum æskilegrar fitu samsetningar hennar, en einfaldleiki hennar lífgar oft upp á og dregur fram bragðgæði annars hráefnis, sem notað kann að vera í matseldinni.
Ólífur og uppskera
Á Ítalíu eru til u.þ.b. 400 tegundir af ólífutrjám, lögun þeirra og útlit getur verið nokkuð margbreytilegt. Yfirleitt eru þau mikil um sig og ná allt að 3-5 metra hæð. Laufin eru ljósgræn að lit og ílöng. Bragðeinkenni ólífa eru nokkuð misjöfn eftir því hvaða tegund á í hlut; Frantoio gefur mikinn ilm, en Moraiolo eru ávaxtamiklar og eilítið beiskar og gefa gulgræna olíu, en Leccino ólífur gefa sætleika. Litur ólífa gefur til kynna hvort ávöxturinn er þroskaður eður ei; grænar ólífur eru óþroskaðar, en þroskaðar ná þær svörtum lit. Allar tegundir ólífa fara í gegnum þetta sama stig og má gera ólífuolíu úr þeim á hvaða stigi sem er, gjarnan er þeim blandað saman í einhverjum hlutföllum sem framleiðandinn ákveður. Hlutfall grænna ólífa hefur ótvírætt áhrif á lit olíunnar, því hærra hlutfall af óþroskuðum ólífum í henni, því grænni verður olían sjálf. Ólífur eru týndar í lok október fram í janúar, fullum þroska ná þær undir lok desember og í janúar ár hvert. Best er að tína þær með höndunum, líkt og Miðjarðarhafsþjóðir hafa gert um aldarraðir. Mikilvægt er að ólífurnar skaddist ekki, einungis heilar og óskaddaðar ólífur eru valdar í hágæðaolíu.
Pressun
Best er að pressun fari fram eins fljótt eftir tínslu og mögulegt er, flestir góðir framleiðendur hafa að markmiði að pressa ólífurnar innan 24 klst frá tínslu. Pressun fer fram undir granít steini, og er þessi aðferð notuð bæði af litlum og stærri framleiðendum, með mis miklu vélarafli. Olían sem kemur úr fyrstu pressun (first cold pressing) kallast Extra Virgin ólífuolía, eða jómfrúrólífuolía, en sýrustig hennar má einungis vera undir 1% til þessa að nota megi það heiti. Seinni pressun fer til framleiðslu framleiðslu venjulegrar ólífuolíu koma þá til sögunnar ýmist önnur innihaldsefni en afurð ólífanna eingöngu.
Þó ekki sé hægt að gefa ólífuolíu ákveðinn líftíma má þó segja að nýpressuð sé hún best, fyrst eftir pressun finnast ýmist bragðgæði sem dofna með tímanum. Súrefni er auk þess óvinur ólífuolíu, hún oxiderast eftir að flaskan hefur verið opnuð. Hennar ber því að neyta sem hraðast eftir að umbúðir hafa verið opnaðar, og geyma í ísskáp. Segja má að í matargerð sem gerir kröfur til hráefnisins eigi það sama við um góða ólífuolíu og á við um ferskvöru, þ.e. hún er best ný.
Ólífu héruð á Ítalíu
Á Ítalíu vaxa ólífutré víða, þó ekki í Norður héruðum landsins. Frá Ligúríu og suður til Sikileyjar vaxa ólífutré nær sleitulaust og setur ólífuolía eðlilega mikinn svip á matargerð þeirra héraða. Þau héröð sem hvað þekktust eru fyrir ólífurækt og olífuolíu eru Ligúría, Toskana, Umbria og Abruzzo. Ligúríu olían þykir einkar mild og fáguð, hentar einkar vel á fisk sem nóg er af á borðum veitingahúsa í því héraði. Toskana ólían þykir bragðmikil og ávaxtarík, og það sama má segja um olíuna frá næsta héraði við Toskana, Umbria, þaðan sem margir segja að komi bragðmestu ólífurnar. Matargerð Umbriu einkennist af því að nær aldrei er notað smjör, um héraðið allt vex gnægð ólífa sem gefur af sér ávaxtaríka og fjöruga ólífuolíu sem hentar einkar vel í bland við annað yndislegt hráefni Umbriu, s.s. trufflur og geitaost. Abruzzo, lítið hérað um mið-Ítalíu á land að sjó, en býr jafnframt yfir hæðum þar sem vaxa ólífutré. Abruzzo ólífuolían hefur verið að draga að sér athygli undanfarið fyrir bragðgæði sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 31. janúar 2008
Eithvað kostar þá Laugavegurinn
Eftirfarandi er niðurstaða Samfylkingarinnar í borgarráði:
Ljóst er að kaup nýs meirihluta á fasteignum að Laugarvegi 4 og 6 stefnir uppbyggingaráformum við Laugarveg og í miðborg í óefni. Keypt hafa verið hús fyrir 580 milljónir króna - ofurverð sem skapar nýtt markaðsverð í sambærilegum og svipuðum málum.
Ljóst er að þessi ákvörðun þýðir að Reykjavíkurborg ætli að reiða fram allt að milljarð króna til uppkaupa og endurbyggingar reitsins þar sem kostnaður við enduruppbyggingu hefur verið metin á 389 milljónir króna. Þetta er fáránleg nýting á almannafé. Fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar verður aldrei undir hálfum milljarði króna og getur hæglega orðið mun hærri.
Hefði friðun húsanna orðið að veruleika einsog gerst hefði þremur dögum eftir hin makalausu uppkaup hefði götumyndin haldið sér, skipulagsmál í miðborginni hefðu ekki verið í uppnámi, borgarsjóður hefði ekki tapað mörg hundruð milljónum og hættulegt fordæmi hefði ekki verið skapað sem skaða mun allar frekari áætlanir um húsvernd.
Rökin um að borgin hljóti að þurfa að grípa inn í með uppkaupum þegar friðun húsa er í réttum farvegi halda engan veginn og hljóta að vekja margar spurningar nú þegar tillaga um friðun 10 húsa við Laugaveg er í farvatninu. Þessi málsmeðferð og þetta verð stefnir friðunartillögum og húsverndaráformum í miðborg og Kvos í voða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Lambalundir
Glóðaðar Tandoori lambalundir

500 gr. lambalundir
4 msk. Patak´s Tandoori Paste
2 msk. Rajah Tandoori kryddblanda
1 msk. nýtt engifer, rifið
1 msk. hunang
1 dl. hrein jógúrt (1/2 dós)
Salt og pipar eftir smekk
Blandið kryddlög úr kryddi, kryddmauki, engiferi, hunangi og jógúrt. Saltið og piprið eftir smekk. Látið lambalundirnar liggja í leginum í 4 til 12 klst. Glóðið lambalundirnar við vel heita glóð í ofni eða á útigrilli. Þær má einning pönnusteikja.
Berið lambalundirnar fram með hrísgrjónum. Með þeim er einnig gott að hafa lauk, steiktan á pönnu.
Tandoori kryddblandan kemur frá Rajasthan í vesturhluta Indlands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Lambið altaf gott
Lamb með myntu og kóríander

250 gr. lambakjöt, skorið í ferninga
70 gr. Patak´s Balti Curry Paste
200 gr. tómatar, niðurskornir
100 gr. laukur, niðurskorinn
2 msk. hrein jógúrt
2 msk. fersk mynta
1 msk. ferskur kóríander
125 ml. vatn
2 msk. olía
Hitið olíuna á pönnu og steikið laukinn í 4 mín. Bætið lambakjötinu út í, ásamt Balti kryddmaukinu, og steikið í 3 mín. í viðbót. Bætið tómötunum og jógúrtinni út í, setjið síðan lok á pönnuna og látið malla í 30 mín., bætið vatni út á ef sósan er of þykk. Bætið myntunni og kóríandernum út í og berið fram með hrísgrjónum og Naan brauði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. janúar 2008
Landbúnaðarmál
Landbúnaðarmál Íslendinga hafa löngum verið milli tannanna í fólki (að öðru leyti en í formi landbúnaðarafurða), þ.e. menn hafa lengi deilt um stefnu þá sem höfð er í húfi hér á landi í landbúnaðarmálum. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum, enda eðlilegt þegar um svona stóran og mikilvægan málaflokk er að ræða. Sjálft nóbelskáldið, Halldór Laxness gagnrýndi harðlega ríkjandi landbúnaðarstefnu þess tíma í frægu greinasafni í kringum 1950. Hann var svo sjálfur gagnrýndur harðlega af mörgum fyrir þau skrif. Það er nú einu sinni svo, að þegar einhver ætlar að fara að hræra upp í fyrirkomulagi og gagnrýna stefnu eins og lanbúnaðarmál, þar sem margir eiga hagsmuna að gæta, ekki síst pólitískra, að þá fer allt á annan endann og þeir sem hagsmunanna eiga að gæta gera allt til að verja sig og sína hagsmuni (og landbúnaðinn!). Ekki ætla ég mér það mikla verk (enda ekki þess umkomin) að gagnrýna lanbúnaðarstefnu Íslendinga og benda á betri lausnir. Mig langar hins vegar til að skoða aðeins hlutina út frá ljósi ferðamennskunnar og benda á þann mikilvæga punkt, að upplifa landið í gegnum matarmenningu þess ekki síður en aðra menningu og landslag.
Búandi á Ítalíu, finn ég fyrir sláandi mun á landbúnaðarstefnu Íslands og Ítalíu. Það er eðlilegasti hlutur í heimi þegar maður býr erlendis að bera saman hluti milli landanna. Ítalía hefur marga galla ekki síður en kosti, en það verður að segjast að í landbúnaðarmálum eru þeir flestum til fyrirmyndar. Landið skiptist upp í mörg matarlönd og fjölbreytnin er óendanleg. Þeir tengja lanbúnaðarvörurnar sterkt ákveðnum svæðum og eru með svokallað D.O.C. sem stendur fyrir að tryggt sé samkvæmt ákveðnum staðli og eftirliti að varan sé af tilteknum uppruna, tilteknu svæði. Allt annað sem ber sama nafn eru eftirlíkingar. Þær geta veri bragljúfar og í besta lagi, en neytendur eru meðvitaðir um þetta og geta sjálfir skorið úr um gæðin.
Þegar maður ferðast um Ítalíu er landbúnaðarstefnan einnig mjög áberandi. Þegar maður gistir t.a.m. í bændagistingu, er mjög algengt að hægt sé að kaupa af bændunum þeirra prívatframleiðslu, sem er þá bundin sterkum böndum við þá ræktun og framboð sem er á því tiltekna svæði. Dæmi: Sé maður í Toscana er ekki ólíklegt að ferðaþjónusturnar bjóði til sölu eigin framleiðslu á víni og olíu, fyrir utan grænmeti og ávexti eins og kastaníur, sveppi ofl. Mjög margir aðilar búa til ýmsar pastasósur, hunang og sultur og selja ferðamönnum, sem þannig taka með sér ilm og bragð héraðsins í formi gómsæts og persónulegs bragðs.
Þannig verður til í huganum nett ferðaþjónusta þar sem maður tengir gjarnan hvern stað við einhvern afbragðs góðan líkjör sem bara fæst á þeim stað, eða vín, eða ost. Þegar maður svo fer aftur á stað er það ekki síður Limoncello-líkjörinn hans Giuseppe á Sardiníu sem ræður úrslitum um val á gististað en landslagið, aðstaðan og viðmótið. Það má vel kalla þetta matarást. Heima á Íslandi hefur því miður ekki enn skapast þessi hefð, því ekki virðist hafa verið grundvöllur fyrir henni.
Ein af ástæðunum fyrir allri þessari grósku í heimaframleiðslu ítalskra bænda er sú, að þeir byggja sitt bændaþjónustu- og landbúnaðarkerfi upp á mjög ólíkan hátt og Íslendingar og að mínu mati ættum við að læra af þeim í þessum efnum. Á Ítalíu er það þannig, að menn fá ekki leyfi fyrir ferðaþjónustu eða bændagistingu, nema þeir séu með einhverja landbúnaðarvöruframkleiðslu, s.s. vín, osta, hunang osfrv. Þetta hvetur menn í greininni til að stofan slíkan rekstur, því þessum aðilum eru svo veitt alls kyns hlunnindi, t.d. þurfa ferðaþjónustur að borga mun lægri skatta og ýmis gjöld heldur en hótel (á Íslandi borga staðirnir hins vegar það sama og hótelin) og þeir þurfa heldur ekki að telja eins nákvæmt fram. Mönnum er semsagt umbunað og nánasat verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að stunda slíkan rekstur. Ferðamannahandbækur spretta fram hver af annarri, þar sem áhersla er lögð á þessa "enógastrónómísku" ferðaþjónustu, þ.e. matar-víntengdu ferðaþjónustu og ferðamáta og fólk sækir í mun meira mæli á slíka staði. Auðvitað er margt að gerast gott í landbúnaðarmálum ekki síður en ferðamálum, en það vantar sárlega þessa tengingu við ferðaþjónustuna sem um rætt og þar getur ekki verið öðru um að kenna en úreltri landbúnaðarstefnu og e.t.v. að mörgu leyti staðnaðri ferðamálapólitík. Sjálf hef ég unnið sem leiðsögumaður á Íslandi (með Ítali) og veit að þeir sakna sárlega að geta ekki keypt t.d. sauðaost búinn til bóndanum sem þeir gista hjá (almennt skilur enginn túristi í því af hverju mjólkin af okkar sællegu rollum er ekki nýtt í matargerð). Eins finnst fólki miður að geta ekki keypt litlar flöskur með rabarbaravíni, bláberja- eða rifsberjasnafsi á sveitahótelunum sínum.
Sjoppumenningin er svo annar handleggur. Þú keyrir í krignum landið, en miðað við það sem þú færð að borða í sjoppunum, gætirðu allt eins verið "on the road" í Bandaríkjunum eða nánast hvar sem er. Engin tengsl eru á milli landsins og þess sem boðið er upp á (fyrir utan stöku flatkaka með hangikjöti). Þarna gæti verið um samvinnumöguleika á milli bænda og sölustaðanna að ræða. Einhver sem getið hefur sér gott orð t.d. fyrir reykta silunginn sinn og skonsur og annar sem ræktar afbragðs kál, myndu slá saman og selja sjoppunum eðal samlokur, alíslenskar og án alls majóness. Sjálf yrði ég ekki lengi að gera upp á milli hamborgara með öllu og grillaðrar samlokur með hunangi og sauðaostinum hans Sæma á Skeri. Vonandi er þetta framtíðin!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- 2.1.2014 Áramót
- 3.10.2011 Saltfiskur með ólífum, chilipipar og hvítlauk
- 15.10.2009 Innbakað lambafille með Duxelles
- 2.5.2009 Fylltur kjúklingur á ítalska vísu
- 23.4.2009 Lasagne með kotasælu
Færsluflokkar
Bloggvinir
-
bjarkey
-
bjarnihardar
-
dofri
-
ellidiv
-
estersv
-
georg
-
gmaria
-
gretaulfs
-
gudnim
-
harhar33
-
hector
-
helgigunnars
-
jp
-
juljul
-
klossi
-
kolbrunerin
-
krutti
-
ktomm
-
liljabjork
-
lillagud
-
loathor
-
maggibraga
-
magnolie
-
magnusg
-
magosk
-
margith
-
mariaannakristjansdottir
-
neytendatalsmadur
-
omarpet
-
palmig
-
pandora
-
ranka
-
saelkeri
-
sax
-
sibbulina
-
siggagudna
-
siggith
-
skordalsbrynja
-
skulablogg
-
slembra
-
solir
-
steingerdur
-
sur
-
thrudur
-
tildators
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vestskafttenor
-
vga
-
zunzilla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar